Skólinn er opinn frá kl.7:45 og lokar kl.16.15

Alltaf þarf að virða dvalartíma barnanna og gæta þess að fjöldi starfsmanna í húsi fer eftir dvalartímum og að allt rask getur haft áhrif á öryggi barna og starfsmanna. Mikilvægt er að gæta þess að ef barn er með dvalartíma til kl.16.15, að vera búinn að nálgast fatnað og annað sem þarf að sækja inn í skólann fyrir þann tíma.


Aðlögun

Að byrja í leikskóla er ný reynsla fyrir barnið og foreldra/forráðamenn þess og er því mikilvægt að huga vel að hvernig staðið er að aðlögun. Nauðsynlegt er að gefa barninu nægan tíma í upphafi leikskólagöngunnar til að kynnast nýju umhverfi og að það öðlist öryggistilfinningu. Barnið þarf góðan tíma til þess að kynnast skólanum, nýju umhverfi, starfsfólkinu og hinum börnunum. Á meðan á aðlöguninni stendur er mikilvægt að foreldrar/forráðamenn kynnist starfsfólki og því starfi sem fram fer í skólanum. Með því er lagður góður grunnur varðandi áframhaldandi leikskólagöngu barnsins.


Dvalarsamningar

Við upphaf skólagöngu skrifa allir foreldrar undir dvalarsamning. Við hvetjum foreldra að kynna sér ákvæði dvalarsamnings barnanna vel. Í honum er m.a. skráður dvalartími en eftir dvalartímum barnanna er farið þegar starfsfólk er ráðið til skólans.


Foreldrasamstarf

Gott samstarf foreldra og skóla er forsenda fyrir góðri líðan barnsins í skólanum. Samvinna foreldra og leikskóla þarf að byggjast á gagnkvæmri virðingu og opnum samskiptum. Foreldrum er ávallt velkomið að dvelja í skólanum og taka þátt í starfinu.

Upplýsingatöflur eru fyrir framan deildirnar og í fataklefum skólans, þær eru ætlaðar til að koma upplýsingum á framfæri til foreldra/forráðamanna. Fylgist vel með upplýsingatöflunum.


Að koma og fara
Þegar barnið kemur í leikskólann á að fylgja því inn á sína leikstofu/deild og afhenda starfsmanni og þegar barnið er sótt er mikilvægt að láta starfsmenn vita. Mjög mikilvægt er að foreldrar kveðji barnið.

Samkvæmt tilskipun frá Fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar er börnum undir tólf ára aldri ekki heimilt að koma með og/eða sækja börn í skólann. Foreldrar eru beðnir um að virða þessa reglu.

Eins er æskilegt að nemendur komi á réttum tíma í skólann, til þess að sem minnst rask sé á skipulögðu starfi og þá er sérstaklega ætlast til þess að börnin séu komin fyrir hádegismat ætli þau að koma í skólann þann daginn.


Fjarvistir, veikindi og slys

Frí og veikindi skal tilkynna til leikskólans. Öll veikindi barna eru skráð í heilsubók barnsins sem hvert barn á, en það er einn liður í starfi heilsuleikskólans Skógaráss. Æskilegt er að tilkynna fjarvistir barns eins snemma morguns og unnt er.

Ef barn veikist í leikskólanum er haft samband við foreldra og þess óskað að barnið verði sótt. Ef barn verður fyrir minni háttar slysi er strax haft samband við aðstandenda barns og honum falið að fara með barn á sjúkrahús/heilsugæslu/tannlæknis. Starfsmenn skóla fara ekki með börn þar sem mikilvægt er að foreldri sé til staðar og starfsmenn eru ekki með viðeigandi búnað í bílum sínum til að fara með börn. Ef um meiriháttar slys er að ræða er unnið eftir slysaferli og samband haft við 112.


Innivera eftir veikindi

Best er að barnið hafi náð fullum bata eftir veikindi svo það geti tekið fullan þátt í starfi skólans. Við tökum ekki á móti börnum sem þurfa að vera inni vegna þess að þau eru alveg að verða veik. Börn eru smitberar á þeim tíma og geta því smitað önnur börn. Læknar hafa staðfest að börn verða ekki veik af því að vera úti í fersku lofti og að börnum með kvef verður ekki meint af því. En eftir veikindi er ætlast til að börn séu búin að vera hitalaus í a.m.k. sólahring og orðin hress, til að geta þá fengið að vera inni í 2 daga á leikskólanum, svo framarlega sem veikindi hafa verið tilkynnt skólanum.


Lyfjagjöf í leikskólanum

Í samráði við HSS hafa verið gerðar reglur um lyfjagjöf í leikskóla. Þar segir að eingöngu megi gefa astma-, ofnæmis– og ofvirknilyf í leikskólum og þá eftir skriflegum fyrirmælum frá lækni. Lyfin eru geymd á öruggum stað. Fúkkalyf sem börn taka í stuttan tíma á ekki að þurfa að gefa í skólanum. Að sögn lækna er nóg að gefa slík lyf með mjólk að morgni, þegar komið er heim og fyrir svefn. Reglur þessar eru settar til að stuðla að öryggi barna í leikskóla. Samkvæmt þessu megum við ekki gefa börnum önnur lyf en fyrr greinir og biðjum við foreldra að virða það.


Ofnæmi

Ef börn geta ekki neytt fæðis sem boðið er uppá í leikskólanum þá þurfa foreldrar að koma með vottorð frá lækni þar um. Endurnýja þarf vottorðið ár hvert að hausti.


Leikföng að heiman
Ekki er æskilegt að börnin komi með leikföng að heiman í skólann, það er þó sjálfsagt að þau komi með bangsa eða tuskudýr sem veitir þeim öryggi í aðlögunarferlinu. Einnig má koma með bækur að heiman sem öll börnin geta notið góðs af. Við getum þó ekki tekið ábyrgð á því ef þessir hlutir skemmast eða týnast hjá okkur.


Fatnaður
Innifatnaður er vinnufatnaður barnins í leikskólanum og skal miða fatnað barnsins við þá starfsemi sem þar fer fram. Útifatnað skal miða við veður hverju sinni. Barnið þarf að vera með auka inniföt til skiptanna. Foreldrar fylla fatahólf barnsins af nauðsynlegum fatnaði á mánudögum og eftir þörfum. Foreldrar bera ábyrgð á því að börnin séu alltaf með nægan fatnað og kennarar koma skilaboðum til foreldra um slíkt. Nauðsynlegt er að merkja fötin vel með nafni barnsins en forðast að skrifa skammstafanir. Merkt föt komast frekar til skila.

Mikilvægt er að fatnaður barnanna sé þægilegur þannig að hann hefti ekki leikgleði þeirra. Klæðið börnin eftir veðri en hafið það ætíð hugfast að börn hreyfa sig mikið við leik úti og geta því svitnað ef þau eru mikið klædd. Nauðsynlegt er að barnið hafi með sér aukafatnað. Í skólanum vinnum við með ýmis efni s.s. lím og málningu sem geta farið í föt barnanna þó svo starfsfólk leiti allra leiða til að svo verði ekki. Vinsamlegast takið tillit til þess.


Tæma töskur og hólf
Það eru mörg börn sem nota fataherbergin og til þess að allir hafi nægilegt pláss er nauðsynlegt að tæma/taka uppúr töskum á mánudögum og setja föt barnsins í hólfið. Hvert barn á sína hirslu undir aukafötin og sitt hólf fyrir útifötin. Töskur undan fatnaði barnanna eru ekki geymd í leikskólanum.

Á föstudögum eru útiföt tekin heim þannig að engin föt séu á snögunum og í hólfum, svo hægt sé að þrífa vel hillurnar í fataherbergjunum. Fatahólf sem ekki eru tæmd, verða heldur ekki þrifin og hreinlæti er mikilvægur þáttur í heilbrigði okkar og getur haft áhrif á heilsufar.


Afmæli

Haldið er upp á afmæli barnanna í skólanum með því að börnin búa til sína eigin kórónu, afmælissöngurinn er sunginn í samverustund fyrir barnið, barnið velur sér afmælisdisk og afmælisglas sem það notar í hádegismat og nónhressingu. Veitingar að heiman eru ekki leyfðar.


Skipulagsdagar og starfsmannafundir

Leikskólinn lokar í 5 virka daga yfir skólaárið vegna starfsdaga og samtals 10 klst. þar fyrir utan vegna starfsmannafunda. Þessir starfsdagar og starfsmannafundir eru skráðir á skóladagatalið strax á haustin og einnig auglýstir með fyrirvara.


Dvalargjöldin
Gjöldin eru greidd fyrirfram, greitt er fyrir einn mánuð í senn og gjald lækkar ekki þó barn sé fjarverandi. Skuldi foreldrar tvo mánuði er barninu sagt upp leikskólarýminu.
Gagnkvæmur uppsagnafrestur er einn mánuður og miðast við 1. hvers mánaðar. Hægt er að sækja um breytingar á vistunartímum, sem og segja upp leikskólaplássi hjá Deildarstjórum, sem Skólastjórinn svo samþykkir. Sækja þarf um afslátt af leikskólagjöldum einu sinni á ári að hausti umsókn um lækkun gjalda er á mittreykjanes.is og þar þarf að skila inn viðeigandi gögnum. þeir sem eiga rétt á afslætti af leikskólagjöldum eru:

  • Börn einstæðra foreldra
  • Börn þar sem annað foreldri er í fullu dagnámi (15/30 einingar á önn)
  • Foreldrar sem eiga barn undir leikskólaaldri og annað á leikskóla eiga rétt á systkinaafslætti að loknu fæðingarorlofi

Beiðnir eru afgreiddar hjá leikskólafulltrúa á fræðsluskrifstofu og skal umsóknin endurnýjuð árlega fyrir 31. ágúst.


Starfsfólk Leikskóla
Skólastjóri er yfirmaður leikskóla og ber ábyrgð á rekstri skólans og að unnið sé eftir Aðalnámskrá leikskóla og skólanámskrá Heilsuleikskólans Skógaráss.
Deildarstjóri ber ábyrgð á uppeldi og menntun barnahópsins á sinni deild. Hann ber einnig ábyrgð á foreldrasamstarfi deildarinnar.
Kennarar vinna í samstarfi við deildarstjóra að uppeldi og menntun barnanna.
Fagstjórar sjá um skipulagningu og kennslu í hreyfingu, tónlist og myndsköpun.

Sérkennslustjóri sér um skipulagningu á sérkennslu í samráði við stjórnendur og ber ábyrgð á framkvæmd sérkennslu og greiningarferlis.
Matráður og starfsfólk í eldhúsi sjá um innkaup, matargerð og að fylgja eftir næringarstefnu Samtaka Heilsuleikskóla.

Allt starfsfólk leikskólans er bundið þagnarskyldu og þær upplýsingar sem starfsmaður fær um barnið eru trúnaðarmál.
Þagnarskylda helst þó látið sé af starfi.

© 2016 - Karellen