news

Gleðilegt ár

10. 01. 2022

Gleðilegt ár kæru vinir nær og fjær og takk fyrir það liðna, vonandi áttuð þið góðar stundir yfir hátíðirnar og hlökkum við mikið til að hefja þetta nýja ár með ykkur.

Það verða breytingar á starfinu hjá okkur í Skógarási líkt og á öðrum stöðum í upphafi árs 2022 þar sem Covid19 smit hafa stungið sér víða niður þessa síðustu daga.

Við erum komin í 2 sóttvarnarhólf og mannskapnum skipt upp í samræmi við aðstæður og barnafjölda og hefur það veruleg áhrif á sjálft skólastarfið.

Starfið á deildunum sjálfum verður með svipuðu formi og verið hefur.

Öll sérverkefni verða ýmist hvíld á þessum tíma og/eða aðlöguð að breytilegum aðstæðum/mönnun hverju sinni.

Hreyfing og listsköpun

Deildirnar munu að mestu sjá um þetta sjálfar.

Eldri deildirnar (Lóa og Spói) hafa aðgang af hreyfisalnum og listasmiðjunni, en breytt skipulag og áherslur.

Yngri deildirnar (Kría og Krummi) nýta deildir í listsköpun og svo útiveru í hreyfistundir. Hér er mjög mikilvægt að huga vel að fatnaði barnanna og gæta þess að þeim vanti ekki nauðsynlegan búnað.

Allar okkar ákvarðanir og ráðstafanir eru teknar með því hugarfari að minnka líkur eins og hægt er á hópsmiti, til að ekki þurfi að koma til frekari skerðingar á skólastarfinu s.s. með lokun.

Reglur fyrir ykkur foreldra

  • Grímuskylda í öllum samskiptum við starfsfólk (2 metra fjarlægðarmörk).
  • Samskipti við starfsfólk sem þarfnast samtals fara fram í gegnum tölvupóst eða símtal, í samráði við deildarstjórana.
  • Sótthreinsistöðvar eru við alla innganga skólans og þá ber að nota í hvert sinn.
  • Eingöngu má koma inn í forstofur þegar komið er með börnin og/eða þau sótt (það má ekki ferðast innanhúss í skólanum).
  • Æskilegt er að eingöngu 1 fylgi barni eða sæki barn í skólann (þ.e. einn í einu ekki tveir eða fleiri saman á sama tíma, en þetta á ekki við um systkini sem eru líka í skólanum eða yngri systkini).
  • Staldrið stutt í forstofunum til að minnka líkur á smiti og til að allir hafi tíma til að virða nálægðarmörk við aðra foreldra.
  • Allir sem eru með covid tengd einkenni eiga ekki að koma í skólann og eru hvattir til að fara í sýnatöku.
  • Fylgjast daglega með öllum tölvupóstum sem koma frá skólanum, því aðstæður geta breyst hratt og við þurft að bregðast við fyrirvaralaust.

Munum svo ríghalda í húmorinn og gleðina til að hjálpa okkur í gegnum þetta.

© 2016 - Karellen