news

Föstudagsfrétt

12. 05. 2023

Komið sæl kæru foreldrar

Þetta var afskaplega skemmtileg vika hjá Spóa. Við fengum frábært veður þannig þessi vika einkenndist að mikilli útiveru og undirbúning fyrir útskrift.

Á mánudaginn teiknuðu nokkur börn Svamp Sveinsson. Ótrúlega flottar myndir, við eigum mörg hæfileikarík börn inni á Spóa.

Í seinustu viku ákváðum við að byrja á nýju verkefni fyrir útskriftina okkar, fyrsta skrefið í verkefninu var að börnin áttu að teikna mynd af sjálfum sér. Við kennararnir hjálpuðum þeim að teikna fingurna og tásurnar en börnin gerðu búkinn, hausinn, hendurnar og fæturnar með smá leiðbeiningum. Í þessari viku máluðu þau myndirnar sínar með vatnslitum og að lokum fóru þau yfir útlínurnar með svörtum tússpenna. Við erum mjög spennt að sýna ykkur útkomuna á útskriftinni.

Á miðvikudaginn fórum við í Nettóhöllina á fótboltaæfingu. Þau stóðu sig öll mjög vel og voru hæstánægð þegar þau fengu í hendurnar tvo glænýja fótbolta sem voru strax teknir í notkun þegar við komum aftur í leikskólann. Þetta var gjöf frá þjálfurum okkar þar sem þetta var seinasta fótboltaæfingin okkar saman.

Fimmtudagurinn var afar viðburðaríkur hjá okkur á Spóa. Við fórum í útskriftaferðinaokkar til Víkingaheima. Við byrjuðum daginn okkar á því að taka tvo strætó til að komast á áfangastað. Þegar við mættum skiptum við nemendunum í tvo hópa, einn hópurinn fór inn í Víkingaheima þar sem Hrafn beið okkar í víkingabúning, hinn hópurinn byrjaði úti þar sem þau gátu málað með vatnslitum á stóra steina. Þegar báðir hóparnir voru búnir að skoða víkingaskipið þá löbbuðum við í fjöruna þar sem börnin gátu vaðað og reynt að finna sjávarlífverur. Við fengum pylsur og heilsusafa í hádegismat. Eftir hádegismat fengu börnin aðeins að leika sér á svæðinu áður en leiðinni var heitið aftur upp í leikskóla. Að okkar mati þá heppnaðist útskriftarferðin mjög vel! Virkilega skemmtilegur dagur sem endaði á góðri útiveru.

Á föstudeginum fór Ásta og Thelma Lind með börnin í vettvangsferð. Fram að sumarlokun þá mun Ásta taka börnin í vettvangsferðir á föstudögum í staðinn fyrir að fara með þau í hreyfisalinn.

Takk kærlega fyrir vikuna og eigið góða helgi.

Kær kveðja,

Spói.

© 2016 - Karellen