news

Ásta Kata hlaut hvataverðlaun Íþróttasambands Fatlaðra 2019 fyrir YAP

13. 12. 2019

Ásta Katrín Helgadóttir hefur í áratugi starfað með ÍF að fjölmörgum verkefnum en hún hlýtur Hvatabikarinn fyrir sérverkefni sem tengist leikskólastarfi og hreyfiþjálfun barna.

Hvataverðlaunin eru veitt einstaklingum, félagasamtökum, stofnun, fyrirtæki eða öðrum aðilum sem á framsækinn hátt hafa unnið í þágu íþróttastarfs fatlaðra á árinu

YAP hefur að markmiði að stuðla að snemmtækri íhlutun á sviði hreyfifærni, sérstaklega fyrir börn með sérþarfir eða frávik. Heilsuleikskólinn Skógarás, Ásbrú hefur verið leiðandi samstarfsaðili ÍF frá upphafi við innleiðingu YAP á Íslandi. Í starfi sínu sem íþróttakennari hefur Ásta Katrín sýnt frumkvæði og leitt innleiðingarferlið með markvissri hreyfiþjálfun og rannsóknum á árangri. Hún hefur náð að tengja hugmyndafræði YAP við dagleg verkefni og nám í samstarfi við samstarfsfólk.

Ásta Katrín hefur aðstoðað framkvæmdastjóra Special Olympics á Íslandi við kynningarstarf á landsvísu, skipulagt verklega sýnikennslu á YAP kynningardögum og kynnt árangursríka aðferðafræði innleiðingar í heilsuleikskólanum Skógarási. Þar hafa öll börnin notið góðs af en sérstakur markhópur hefur verið börn með slaka hreyfifærni, hegðunarvandkvæði, hreyfivirkni eða ADHD og einnig nemendur sem eru t.d. óöruggir eða tvítyngdir. Rannsóknir sem gerðar hafa verið á heilsuleikskólanum Skógarási hafa sýnt framfarir í hreyfifærni en einnig jákvæð áhrif YAP verkefnisins á félagsleg samskipti, vellíðan, sjálfsöryggi og gleði, sjálfsstjórn og tjáningu. Rannsókn á viðhorfi foreldra leikskólabarna í Skógarási til YAP verkefnisins, sýndi fram á að foreldrar töldu sig meðvitaðri um að auka og fylgjast með hreyfiþroska barnsins og þeir töldu að YAP verkefnið hafi haft jákvæð áhrif á hreyfiþroska, samskipti, félagsfærni og hegðun. Rannsókn sýndi einnig að kennarar leikskólans töldu YAP verkefnið hafa haft mjög jákvæð áhrif á hreyfiþroska og félagsfærni og einnig jákvæð áhrif á samskipti og hegðun nemenda. Markmið er að YAP verkefnið styrki börnin, geri þau hæfari til að stíga fyrstu skrefin í íþróttum og stuðli þannig að jákvæðri upplifun og þátttöku allra barna í íþróttastarfi. Þetta verkefni er því talið mjög mikilvægt til framtíðar fyrir starfsemi ÍF.

Íþróttasamband fatlaðra þakkar Ástu Katrínu sitt mikilvæga framlag.

Hún er sannarlega vel að þessu komin og óskum við henni innilega til hamingju.

Við þetta tækifæri var Ásta Katrín einnig sæmd gullmerki Íþróttasambands fatlaðra.

© 2016 - Karellen